Leit
Loka

Vísindi á vordögum 2024

Banner mynd fyrir  Vísindi á vordögum 2024

Vísindi á vordögum er og verður uppskeruhátíð vísinda á Landspítalanum. Hátíðin hefur verið haldin í árlega síðan 2001 að venju í lok apríl eða byrjun maí. Á hátíðinni er farið yfir árangur af vísindastarfi á Landspítala árinu áður, framúrskarandi vísindamenn spítalans heiðraðir, veittar viðurkenningar og verðlaun auk þess sem styrkir úr Vísindasjóði Landspítala og aðrir styrkir eru afhentir með formlegum hætti.

Vísindi á vordögum 2024 er stórhátíð. Fjöldi innsendra ágripa veggspjalda náði nýjum hæðum 2024 en 73 veggspjöld eru kynnt á hátíðinni og má segja að gangar Barnaspítala Hringsins séu veggfóðraðir með vísindum þetta árið í kringum hátíðina. Með vor í hug og hjarta er litið yfir nýliðið ár í vísindastarfi á Landspítala, borið saman við fyrri ár og spáð í spilin. Framúrskarandi vísindafólk er heiðrað, verðlaun veitt og styrkir formlega afhentir.

Vísindaráð Landspítala ber veg og vanda að dagskrá og skipulagi Vísinda á vordögum.

 

Fjöldi þeirra sem heimsóttu vefsíðu veggspjalda mældist mun meiri en á hefðbundinni veggspjaldasýningu. Þó má ekki draga úr mikilvægi þess að hitta og ræða við vísindamennina sjálfa og fræðast um verk þeirra. Enn verðum við að bíða aðeins með það því að veggspjaldakynningin verður nú aftur á rafrænu formi. Í ár verða hins vegar einnig hengd upp veggspjöld þeirra vísindamanna sem það kjósa fyrir framan Hringsalinn, gestum og gangandi til skemmtunar og fróðleiks, og til marks um grósku vísindanna á Landspítala.

Í ár hélt Vísindaráð Landspítalans úti sérstakri auglýsingaherferð til að minna starfsfólk spítalans á uppskeruhátíð vísinda á Landspítala. Að gefa sér tíma til að taka saman niðurstöður vísindaverkefna sinna og skrifa upp ágrip, sem undanfara veggspjaldakynningar á Vísindi á vordögum. Höfðað var sérstaklega til þeirra sem hafa þegið styrk úr Vísindasjóði Landspítala.

Það er því mikið ánægjuefni að auglýsingaherferðin í ár tókst vel og innsendur fjöldi ágripa varð rúmlega tvöfaldur samanborið við fjöldann í fyrra. Alls bárust 74 ágrip – hér birtast 73 þeirra eftir að hafa staðist ritrýni Vísindaráðs spítalans. Ágripin endurspegla vel vísindaflóruna á spítalanum. Vísindi eru stunduð á öllum sviðum spítalans og er það mikilvægur þáttur starfsfólks á háskólasjúkrahúsi að viðhalda þekkingu og fylgjast með nýjungum á sínu fagsviði. Án vafa eflir þátttaka í vísindaverkefnum starfsfólk í starfi, og stuðlar þannig að betri þjónustu við sjúklinga.

Fjöldi ágripa í ár er mikið gleðiefni, ekki síst vegna þess að vel gerð veggspjöld með kynningum á áhugaverðum niðurstöðum styrktra vísindaverkefna setja sterkan svip á Vísindi á vordögum. Veggspjöld munu því prýða veggi fyrir framan Hringsalinn í húsi Barnaspítalans, þar sem Vísindi á vordögum eru haldin. Þar fá þau að vera í nokkrar vikur eftir að hátíð lýkur. Mikill fjöldi starfsfólks fer þar um og einnig eiga þar leið um skjólstæðingar Barnaspítalans. Án efa munu margir staldra við og kynna sér innihald áhugaverðra veggspjalda.

Sterk hefð er fyrir því að veita verðlaun fyrir bestu ágripin á Vísindi á vordögum. Um er að ræða styrk til að kynna vísindaverkefnið og niðurstöður þess á ráðstefnu erlendis. Skilyrði fyrir vali er að niðurstöður séu kynntar í innsendu ágripi. Við matið er sérstaklega horft til vísindalegs gildis verkefnisins og nýnæmis. Vísindaráð Landspítala sér um valið. Í ár voru eftirfarandi verkefni verðlaunuð:

  • Hálskirtlatökur eru tengdar auknum líkum á því að bera meningókokka – Íris Kristinsdóttir o.fl.
  • Möguleg vanstarfsemi heiladinguls eftir heilahristing hjá íþróttakonum. Hverjar þarf að meta nánar? - Lára Ósk Eggertsdóttir Claessen o.fl.
  • The adjuvants CAF08b and mmCT enhance the antibody response and promote dose sparing to an influenza vaccine in a neonatal murine model – Jenny Lorena Molina Estupinan o.fl.
  • Unveiling the protective role of androgens in CHD1 deficiency: observations in mice and humans – Kimberley Jade Anderson o.fl.

Það er stórt verkefni en ánægjulegt að standa að kynningu á vísindaverkefnum á hátíð eins og Vísindi á vordögum. Fyrir utan þau sem standa að innsendum ágripum þá eru margir sem leggja hönd á plóg við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar – allir eiga skilið miklar þakkir fyrir þeirra framlag. Sérstakar þakkir fá meðlimir Vísindaráðsins sem ritrýndu öll 74 ágripin – einkum Marianne E. Klinke og Jóna Freysdóttir sem sáu einnig um skipulagningu veggspjaldakynningarinnar, ásamt Valgerði M. Backman verkefnistjóra hjá Vísindaráði – sem á einnig miklar þakkir skildar fyrir umsjón með innköllun ágripa og undirbúningi á birtingu þeirra í fylgiriti Læknablaðsins.

Með sumarkveðju
Rósa Björk Barkardóttir, formaður Vísindaráðs Landspítala


Árangursvísar í vísindastarfsemi

Á árinu 2023 var engin lognmolla á Landspítala frekar en fyrri ár og verkefnin óþrjótandi. Árið 2023 var næstsíðasta ár núgildandi vísindastefnu spítalans, sem tekur til áranna 2019-2024. Eitt meginmarkmið þeirrar stefnu er að auka framlög til vísindastarfsemi til samræmis við það sem er talið eðlilegt á norrænum háskólasjúkrahúsum. Einnig er lögð áhersla á að vísindastarf sé eflt og samofið daglegri starfsemi, jafnframt því sem unnið sé að bættri aðstöðu til vísindastarfa og þróun öflugra rannsóknarhópa. Í stefnunni segir einnig að framlög til vísindastarfsemi nái að lágmarki 3% af veltu á árinu 2024 og að aukning verði á fjölda greina þar sem fyrsti og/eða síðasti höfundur kemur frá Landspítala.

Ástæðan fyrir því að menn voru sammála um að stefna að þessum markmiðum er einföld: Fjárfesting í vísindastarfi og þekkingarsköpun er skynsamleg ráðstöfun fjármuna sem skilar sér í bættum árangri í klínískri þjónustu og auðveldar spítalanum að laða að og halda í hæft starfsfólk. Því miður bendir fátt til að spítalinn muni ná þessum tölulegu markmiðum í bráð, enda hafa framlög til vísindastarfsemi staðið í stað undanfarin ár og tími til að sinna vísindastörfum er áfram mjög af skornum skammti.

Einn helsti árangursvísirinn, fjöldi birtinga í ritrýndum erlendum vísindatímaritum, hélt áfram að dragast saman á árinu 2023 og var þar um að ræða áframhald á þróun undanfarinna ára (mynd 1). Þessi þróun er sérstakt áhyggjuefni, en hún helst í hendur við hvernig klínísk heilbrigðisvísindi við Háskóla Íslands hafa fallið á alþjóðlegum listum sem bera saman gæði háskóla.

Fjöldi nema í meistara- eða doktorsnámi sem tengjast spítalanum í námi sínu hefur hins vegar haldist svipaður (mynd 2). Umsóknum til siðanefndar spítalans fjölgaði á síðasta ári sem er ánægjuleg vísbending um vaxandi rannsóknaáform og áhuga, en umsóknum til vísindasiðanefndar, sem oft endurspeglar stærri verkefni (lyfjarannsóknir og rannsóknir á landsvísu) fækkaði á sama tíma (mynd 3). Fjárhæðir styrkja má sjá á mynd 4 sundurgreint eftir því hvort um var að ræða innlenda eða erlenda styrki. Eins og þar kemur fram hafa erlendir styrkir haldið áfram að dragast saman, en innlendir styrkir hækkað og þar munar um aukin framlög til vísindasjóðs spítalans sem er sérstakt ánægjuefni.

Landspítali er háskólasjúkrahús og miðstöð kennslu og rannsókna í klínískum greinum á Íslandi. Ljóst er að styrkja þarf þennan þátt starfseminnar með öllum tiltækum ráðum og koma því þannig fyrir að þetta langtímahlutverk verði ekki ávallt undir í samkeppni við bráðavandamál sem stöðugt knýja dyra. Í heilbrigðisstefnu fyrir Ísland til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi 2019 kemur fram að stofnaður skuli sérstakur heilbrigðisvísindasjóður í síðasta lagi árið 2024. Gjörvallur þingheimur stóð að baki þeirri ályktun. Tryggja þarf að stofnun slíks sjóðs og fjármögnun hans verði að veruleika.

Hér á spítalanum hefur tekist vel til við að byggja upp sérnám í ýmsum klínískum greinum. Hluti af góðu framhaldsnámi og sérfræðiviðurkenningu felur gjarnan í sér kröfuna um reynslu á sviði rannsókna, þótt ekki verði allir klínískir sérfræðingar vísindamenn þegar upp er staðið. Þennan þátt í sérnámi þarf engu að síður að byggja upp á sama hátt og klíníska þjálfun, líkt og gert hefur verið með góðum árangri á öðrum Norðurlöndum. Ég hvet til að góðum hugmyndum þaðan verði stolið og þeim hrint í framkvæmd hér á Landspítala!


Hlutverk Landspítala er þríþætt; Að veita heilbrigðisþjónustu, skapa nýja þekkingu með rannsóknum og mennta heilbrigðisstarfsfólk. Nauðsynlegt er að haldið sé vel utan um þá grunnstoð sem vísindastarfið er enda er það deginum ljósara að vísindi auka fagmennsku, gæði og öryggi og eru forsenda framþróunar í heilbrigðisþjónustu og menntun starfstétta.

Starfsmenn vísindadeildar hafa til margra ára tekið saman árlegt yfirlit um vísindastarf á Landspítala og birtir hina árlegu samantekt á Vísindum á vordögum ár hvert. Gagna sem eru lýsandi fyrir virkni í vísindum s.s. birtingar vísindagreina, styrkfjárhæðir til vísindarannsókna, fjöldi nýrra vísindarannsókna, fjöldi meistara- og doktorsnema er víða aflað og er yfirlitið unnið í samstarfi við forstöðumenn og forsvarsmenn fræðisviða og fræðigreina auk tengiliða.  Regluleg úttekt á vísindastarfinu og niðurstöður hennar er mikilvægur þáttur í að meta árangur vísindastefnu Landspítala á hverjum tíma auk þess sem yfirgripsmikil þekking á áhrifum aðgerða í þágu vísindastarfs næst.

Yfirlit 2023:

 

Sjá einnig yfirlit síðustu ára: 

Safn yfirlita: Yfirlitsskýrslur

Tilgangur sjóðsins er að styðja við vísindastarf starfsfólks Landspítala með því að hvetja vísindafólk til að birta rannsóknir sínar í erlendum tímaritum með háan áhrifastuðul og verja tíma sínum í leiðandi hlutverki í metnaðarfullum rannsóknarverkefnum. Umsækjendur þurfa að vera fyrsti eða síðasti höfundur á vísindagrein sem lýsir rannsóknaniðurstöðum verkefna sem unnin eru á Landspítala og eru merktar honum eins og fram kemur í 2. grein í reglum sjóðsins. Starfsmenn í a.m.k. 50% starfi geta sótt í sjóðinn. Ef fyrsti og síðasti höfundur birtrar greinar eru báðir starfsmenn eiga þeir báðir kost á að sækja um í sjóðinn. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að vísindagreinin hafi birst í viðurkenndu ritrýndu erlendu fagtímariti og fer upphæð styrks eftir flokki tímarita eftir áhrifastuðli tímarits. Styrkir sem veittir eru úr sjóðnum eru ekki bundnir við að greiða niður birtingarkostnað heldur ræður styrkhafinn hvernig hann nýtir styrkinn. Dagleg umsýsla sjóðsins er í höndum verkefnastjóra Vísindaráðs hjá Vísindadeild.


Birtingasjóður-yfirlit styrkúthlutunar 2023

 

 


Á vefsíðu Landspítala er að finna ýmsar hagnýtar og fræðandi upplýsingar um vísindastarfsemina á spítalanum.

 

Allar eldri fréttir
 
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?