Leit
LokaUmönnunarnámskeið

 

Þetta umönnunarnámskeið inniheldur kennsluefni til afnota fyrir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem taka að sér að leiðbeina starfsmönnum í gegnum námskeiðið. Markmið þessa námskeiðs er að undirbúa starfsfólk fyrir starf við umönnun þar sem unnið er undir leiðsögn hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða. Í námskeiðinu fær starfsmaður innsýn í starfið ásamt fræðslu og þjálfun í ákveðnum þáttum sem eru mikilvægir þegar fólki er veitt umönnun. Námskeiðið byggir á upptökum af fyrirlestrum, umræðum við leiðbeinanda, verklegri sýnikennslu og því að framkvæma sjálfur verkið undir leiðsögn.
Námskeiðinu er skipt niður í 7 hluta og því fylgir handbók sem starfsmaður fær til eignar.

 

Handbók og leiðbeiningar

Skipulag námsins og kennslufræði 

Umönnunarnámskeið Landspítala er ætlað sem kennsluefni fyrir hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða
sem eru að leiðbeina og kenna starfsfólki sem ráðið hefur verið til vinnu við umönnun. Námskeiðið er ekki ætlað til sjálfsnáms og nemandinn þarf alltaf leiðbeiningar og kennslu frá fagfólki. Þeir sem leiðbeina eru því annað hvort hjúkrunarfræðingar eða sjúkraliðar. Í námskeiðinu fær starfsmaður innsýn, fræðslu og þjálfun í ákveðnum þáttum sem eru mikilvægir þegar fólki er veitt umönnun. Námskeiðið byggir á upptökum af fyrirlestrum, handbók sem nemandi fær til eignar, umræðum við leiðbeinanda, verklegri sýnikennslu og því að framkvæma sjálfur verkið undir leiðsögn.

Markmið
Markmið þessa námskeiðs er að undirbúa starfsfólk fyrir starf við umönnun þar sem unnið er undir leiðsögn hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða.

Um efni námskeiðsins
Efni námskeiðsins byggir á fyrri fyrirlestrum úr Umönnunarskólanum sem var námskeið í boði fyrir starfsmenn í aðhlynningu á öldrunardeildum Landspítala á árunum 2018 til 2020. Þeir sem komu að gerð fyrirlestra í umönnunarskólanum voru: Guðrún Dóra Guðmannsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun; Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun; Jakobína Rut Daníelsdóttir, sjúkraliði og Sigurlaug Björk J Fjeldsted, sjúkraliði.

Auk ýmissa fræðilegra heimilda (sjá heimildaskrá á vefsíðu) er stuðst við efni úr bókinni „Þetta þarf ég að kunna“ og er þýdd úr norsku á vegum Farsællar öldrunar og Landspítala með gæðastyrk frá Heilbrigðisráðuneytinu. Bókin var þýdd af Skopos þýðingarstofu en Berglind Indriðadóttir, iðjuþjálfi hafði umsjón með þýðingu og staðfæringu að íslenskum aðstæðum. Aðrir sem komu að yfirlestri og staðfæringu efnisins voru Guðrún Dóra Guðmannsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun; Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun.

Um kennsluaðferð
Umönnunarnámskeiðið hefur nú verið uppfært og eru fyrirlestrar og handbók á heimasíðu Landspítala. Námskeiðið uppfyllir þau viðmið sem mælt er með fyrir rafræn námskeið samkvæmt ABC Learning Design Method (Clive Young og Nataša Perović, 2020) . Kennsluaðferðin felur í sér að nemandinn kynnir sér efnið með því að horfa á rafræna fyrirlestra og ræðir síðan ákveðin atriði sem skráð eru í handbók sem „hafðu í huga“ við leiðbeinanda sinn. Hann fær síðan sýnikennslu þar sem hann horfir á eða kynnir sér ákveðin atriði sem tilgreind eru í handbók sem verkefni. Í verkefnunum eru einnig tilgreind atriði sem nemandi á síðan að framkvæma undir eftirliti leiðbeinanda síns. Þannig lærir nemandi og festir í minni það sem hann horfir á í fyrirlestrum bæði með að ræða og framkvæma. Handbókin er einnig framvindubók þar sem merkt er við og kvittað fyrir af leiðbeinanda hvaða fyrirlestra búið er að horfa á, hvaða atriði hafa verið rædd, hvaða atriði sýnd og hvaða atriði framkvæmd. Þannig er hægt að fullvissa sig um að nemendi hafi kynnt sér mikilvæg atriði sem tengjast umönnun. Að lokum tekur nemandi próf í því sem hann hefur lært og fær að því loknu viðurkenningarskjal þar sem stundafjöldi námskeiðsins kemur fram.

Mælt er með að nemandi sitji ekki lengur en 40-60 mínútur í einu við að horfa á upptökur en eigi þá samtal við leiðbeinanda sinn og fari yfir viðeigandi verkefni. Einnig er mælt með að nemendur taki u.þ.b. 3 vikur til að klára að fara yfir efni námskeiðsins. Þó verður auðvitað að meta hverju sinni hversu hratt er hægt að fara yfir efnið til að það festist í minni. Taka verður tillit til að starfsmaður sem byrjar í fyrsta sinn að starfa á sjúkrahúsi eða í heilbrigðiskerfinu er að læra margt fleira en það sem kynnt er í námskeiðinu.

Þakkir
Að lokum vil ég þakka öllum sem komu að ráðgjöf varðandi efni þessa nýja námskeiðs. Þar vil ég nefna Guðrúnu Dóru Guðmannsdóttur, sérfræðing í öldrunarhjúkrun og Þorgerði Ragnarsdóttur, hjúkrunarfræðing. Öllu öðru fagfólki sem gert hefur fyrirlestra fyrir námskeiðið eða eiga efni á heimasíðu Landspítala sem við nýtum vil ég einnig þakka. Þá vil ég ekki síður þakka hópi sjúkraliða á Landakoti sem mun ríða á vaðið og byrja að nota námskeiði við kennslu nú í maí 2023. Þau hafa setið með mér kynnt sér efni námskeiðsins, þróað með mér útfærslu þess og komið með gagnlegar ábendingar.

Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun


Efni umönnunarnámskeiðsins byggir á fyrri fyrirlestrum úr 30 stunda námskeiði sem hét Umönnunarskóli öldrunardeilda og var í boði fyrir starfsfólk í aðhlynningu á öldrunardeildum Landspítala á árunum 2018 til 2020. Nafninu var síðar breytt í Umönnunarnámskeið öldrunardeilda en markmið og innihald var hið sama. Tilgangur Umönnunarnámskeiðsins var einkum að bæta gæði þjónustu við sjúklinga á öldrunardeildum og minnka álag á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum sem veittu starfsfólki tilsögn á deild.

Hugmyndin að þessu námskeiði kom fram á fundi deildarstjóra haustið 2017 þar sem rætt var um mikið álag á deildum. Hluti af því fólst meðal annars í stöðugri tilsögn í erli dagsins. Reyndir sjúkraliðar eru veigamiklir í þessu hlutverki og því æskilegt að létta þeim þetta hlutverk að einhverju leyti, þó kennsla og tilsögn þurfi einnig að vera til staðar innan deildar. Upphaflega var ætlunin að kenna nýráðnu starfsfólki við umönnun, en síðan var ákveðið að bjóða öllu starfsfólki við umönnun að taka þátt. Reynsla af eins dags vornámskeiðum sem haldin höfðu verið fyrir starfsfólk í sumar-afleysingum á öldrunardeildum nokkur ár þar á undan nýttist einnig við undirbúning námskeiðsins.

Kennt var í 10 skipti í 2 klst í senn þannig að þetta urðu 20 klst sem reiknast 30 kennslustundir og stóð yfir í 10 vikur. Kennt var á íslensku og var 90% mætingarskylda. Námskeiðinu lauk með prófi og formlegri útskrift þó að námið hefði ekki áhrif á launasetningu. Hins vegar hefur oft verið hægt að safna punktum til launahækkunar gegnum samninga stéttarfélags og voru nemendur hvattir til þess. Deildarstjórar voru áhugasamir gagnvart verkefninu og við útskriftina samfögnuðu þeir með sínu starfsfólki, enda mikilvægt að deildarumhverfið sé ávallt hvetjandi fyrir nám og bestu gæði.

Helsta nýmæli varðandi Umönnunarnámskeiðin var markviss samvinna sjúkraliða af deildunum og sérfræðinga í öldrunarhjúkrun. Fólst hún einkum í því að ákveða sameiginlega hvað efni skyldi kenna og hvernig, en dæmigerð kennslustund samanstóð af stuttri fræðslu auk sýnikennslu og verklegra æfinga. Oftast varð það þannig að sérfræðingar í hjúkrun unnu kennsluefnið upp og kenndu en sjúkraliðar skipulögðu sýnikennslu og verklegar æfingar. Kennt var í kennslusal á Landakoti.

Samtals útskrifuðust 33 nemendur úr Umönnunarnámskeiði öldrunardeild frá byrjun árs 2018 þar til í október 2020. Þetta var allt starfsfólk í umönnun sem ekki var með formlega menntun á því sviði, bæði fólk sem var nýtt í starfi og þeir sem voru með langa reynslu í umönnun. Rúmur helmingur var af erlendu bergi brotinn og var það fólk búið að búa á Íslandi mislengi. Gerð var krafa um lágmarks íslenskukunnáttu en reynt að hvetja og styðja vel við þau sem áttu í erfiðleikum með tungumálið.

Eftirtektarvert var að finna hve þetta námskeið virtist styrkja fólk bæði persónulega og í starfi. Teljum við sem að þessu stöndum mjög mikilvægt að halda slíkum námskeiðum áfram í einhverri mynd bæði til hagsbóta fyrir starfsmanninn og gæði hjúkrunar á öldrunardeildum.

Guðrún Dóra Guðmannsdóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun
Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun

Alzheimersamtökin. (e.d.). https://www.alzheimer.is

Guðrún Dóra Guðmannsdóttir, Ingibjörg Hjaltadóttir, Jakobína Rut Daníelsdóttir og Sigurlaug Björk J. Fjeldsted (2020) Umönnunarnámskeið öldrunardeilda Landspítala [kennsluefni].

Líknarráðgjafateymi Landspítala (2017). Klínískar leiðbeiningar um Líknarmeðferð (2. Útgáfa). Sótt í mars 2023 af:https://www.landspitali.is/library/Sameiginlegar-skrar/Gagnasafn/BRUNNURINN/Kliniskar-leidbeiningar/Liknarmedferd/Liknarmedferd.pdf

Landspítali (e.d.) Byltur og byltuvarnir. Sótt í mars 2023 af: https://www.landspitali.is/fagfolk/reglur-leidbeiningar-handbaekur-og-frettabref/byltur-og-byltuvarnir/

Landspítali (e.d.) Líkamsbeiting og færslutækni við umönnun sjúklinga. Sótt í mars 2023 af: https://vimeo.com/groups/527560

Landspítali (e.d.) Óráð er óráð. Sótt í mars 2023 af: https://www.landspitali.is/fagfolk/reglur-leidbeiningar-handbaekur-og-frettabref/orad-er-orad/

Landspítali (e.d.) Þrýstingssáravarnir. Sótt í mars 2023 af: https://www.landspitali.is/fagfolk/reglur-leidbeiningar-handbaeku r-og-frettabref/thrystingssaravarnir/

Røsvik, J., Brønstad, A., Lepperød, T., Stegen, A., Taranrød,  L. B. og Øverland, L. (2016). Dette Må Jeg Kunne: introduksjon til helse- og omsorgsarbeid (3. útgáfa). Sem, Noregi: Nasjonal kompetansetjeneste for aldring og helse.

Touhy, T., og Jett, K. (2021).  Ebersole and Hess’ Gerontological nursing & healthy aging (6. útgáfa).  Louis: Elsevier, Mosby.

 

 

1. hluti

2. hluti


3. hluti

 

Horfið nú á upptökur um færslutækni við umönnun á vef Landspítala á þessari slóð: Færslutækni við umönnun on Vimeo

 

 

Horfið nú á þetta vídeó sem sýnir neðanþvott fyrir konur og karla: Pericare (New) – YouTube


4. hluti

Horfið nú á tvær upptökur af heimasíðu Embættis landlæknis á þessum slóðum:

Horfið nú á upptökur frá Wings Heath Care Training á þessari slóð:


5. hluti


6. hluti

7. hluti

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?