Tilefnið var 120 ára afmæli kvenfélagsins á síðasta ári. Síðasta aldarfjórðung hefur félagið gefið spítalanum því sem samsvarar um einum og hálfum milljarði króna. Að sögn Önnu Bjarkar Eðvarðsdóttur, formanns Hringsins, er peningagjöfinni ætlað að fjármagna ný tæki og húsbúnað þegar barnaspítalinn og nýi meðferðarkjarninn renna saman.
Ómetanlegt framlag
Við þetta tilefni sagði Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, framlag Hringskvenna til sjúkrahússþjónustu fyrir börn á Íslandi vera ómetanlegt. Barnaspítalinn sé aðeins til fyrir atbeini þeirra og í raun sé það með ólíkindum hverju þær hafi áorkað í gegnum tíðina.
Dögg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri barna- og kvennaþjónustu, sagði Hringinn eitt merkasta grasrótarafl íslensks samfélags. Hún þakkaði Hringskonum fyrir að veita von, fyrir að minna á hvað það þýðir að vera til staðar fyrir hvert annað og að lokum „fyrir að sýna að krafturinn í samvinnu kvenna er einhver sá sterkasti sem til er.“