Verðlaunin nema sjö milljónum króna en um er að ræða ein stærstu verðlaun sem veitt eru íslenskum vísindamönnum. Afhendingin fór fram á Vísindum á vordögum, árlegri uppskeruhátíð vísindastarfs á Landspítala.
Þetta er í tólfta sinn sem veitt eru verðlaun úr Verðlaunasjóðnum. Sjóðurinn var stofnaður fyrir tæpum 40 árum af Árna Kristinssyni og Þórði Harðarsyni, sem báðir voru lengi yfirlæknar á Landspítala og prófessorar við Háskóla Íslands.
Þá var tilkynnt að Björn Guðbjörnsson, prófessor í gigtarrannsóknum við læknadeild Háskóla Íslands, er heiðursvísindamaður Landspítala og Freyja Jónsdóttir, klínískur lyfjafræðingur við Landspítala og lektor við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hefur verið útnefnd ungur vísindamaður Landspítala.
Afkastamikill vísindamaður
Martin Ingi lauk kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2009. Samhliða læknanámi lagði hann stund á doktorsnám í erfðafræði við Háskóla Íslands. Hann stundaði sérnám í svæfingalækningum við Brigham and Women’s sjúkrahúsið í Boston, eitt kennslusjúkrahúsa Harvard háskólans. Að því loknu bætti hann við sig sérnámi í svæfingum fyrir hjarta- og lungnaskurðaðgerðir og einnig í gjörgæslulækningum við Duke háskólasjúkrahúsið.
Martin Ingi starfaði sem sérfræðilæknir við Landspítala frá heimkomu sumarið 2018 fram til 1. mars 2019 þegar hann var ráðinn í starf prófessors og yfirlæknis í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Háskóla Íslands og Landspítala.
Martin Ingi hefur komið að margvíslegum klínískum rannsóknarverkefnum, bæði sjálfstætt og í samstarfi við aðra. Hann er ábyrgðarhöfundur eða fyrsti höfundur ýmissa greina sem hafa meðal annars birst í ritum á borð við JAMA Surgery, British Journal of Anaesthesia og Anesthesia & Analgesia. Hann er einnig afkastamikill kennari og hefur auk kennslu læknanema í grunnnámi komið að handleiðslu sjö doktorsnema og sex mastersnema.