Á meðfylgjandi mynd eru Ævar Þór Eiðsson, Jóhanna Lilja Hjörleifsdóttir, deildarstjóri göngu- og dagdeildar Barnaspítala Hringsins, Hrönn Sigríður Steinsdóttir, kennari á leikstofunni, Ólafur Árni Gizurarson og Sigurður Karl Knútsson frá Verzlunarskóla Íslands.
Barnaspítali Hringsins hefur fengið gefins leikmottu sem hönnuð var af hópi nemenda í frumkvöðlafræði við Verzlunarskóla Íslands. Að auki gaf hópurinn spítalanum 45 þúsund krónur sem var hluti ágóða af vörumessu skólans.
Nemendurnir standa að verkefninu Hjartaborg og hanna leikmottur sem eru bæði fræðandi og skemmtilegar fyrir börn. Fyrsta mottan þeirra, Reykjavíkurmottan, sýnir götur og helstu kennileiti Reykjavíkur og er ein slík nú komin á leikstofu Barnaspítala Hringsins.
Landspítali þakkar kærlega fyrir þessa hugulsömu gjöf.