Parísinn er sjónræn framsetning sem inniheldur fjölbreyttar æfingar og bjargráð sem verðandi mæður og stuðningsaðilar þeirra geta nýtt sér bæði á meðgöngu og meðan á fæðingu stendur. Verkefnið miðar að því að auka öryggi, virkni og vellíðan foreldra í fæðingarferlinu og búa líkamann markvisst undir sjálfa fæðinguna.
Verkefnið á uppruna sinn á ríkisspítalanum í Dublin á Írlandi þar sem ljósmóðirin Sinead Thompson leiddi þróunarvinnuna. Upphaflega var þetta tilraunaverkefni sem reyndist svo vel að í framhaldinu var það tekið upp um nær allt Írland og hefur einnig verið innleitt á fjölmörgum stöðum í Evrópu.
Árangur verkefnisins hefur sýnt sig með ýmsum jákvæðum breytingum í fæðingarreynslu kvenna. Eftir innleiðinguna var upplifun kvenna af fæðingu almennt jákvæðari, konur voru líklegri til að fara sjálfkrafa af stað í fæðingu án þess að þurfa inngrip, og síður var þörf fyrir mænurótardeyfingu og keisaraskurð.
Í Fæðingarparísnum er lögð áhersla á reglulega hreyfingu, slökunar- og öndunaræfingar, sem eru flestar kunnuglegar en settar fram á einfaldan og aðgengilegan hátt. Sigurveig Ósk Pálsdóttir og Steinunn Blöndal, ljósmæður á fæðingarvakt Landspítala, mæla með að hefja notkun á Parísnum frá um 20. viku meðgöngu. Með því gefist verðandi mæðrum og stuðningsaðilum tími til að æfa og tileinka sér tækni sem getur létt undir þegar kemur að sjálfri fæðingunni. Þá stuðli Parísinn að auknu öryggi og sjálfstrausti foreldra í aðdraganda og meðan á fæðingunni stendur.
Nánari upplýsingar um fæðingarparísinn má nálgast á vef Landspítala.