Fasteignaþjónusta Landspítala var heiðruð í flokknum Vinnustaðurinn okkar á ársfundi spítalans í vor.
Fasteignaþjónustan hefur umsjón með 12 þúsund rýmum spítalans sem ná yfir 165 þúsund fermetra á 22 stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnin geta verið allt frá því að skipta um blöndunartæki eða stormjárn, yfir í að endurnýja sjúkrastofu frá grunni.
Fasteignaþjónustan hefur unnið markvisst að því að veita klíníkinni þá allra bestu þjónustu sem völ er á og mæta með bros á vör og jákvæð í verkefni.
Úr tilnefningu: „Ég dáist að hópi iðnaðarmanna sem starfar á spítalanum, þeir eru fljótir að bregðast við beiðnum og leysa úr öllum verkefnum með bros á vör. Það er mikill fengur fyrir Landspítala að hafa svona öfluga iðnaðarmenn í sínum röðum.”
Í myndbandinu er rætt við Jóhann Frey Jóhannsson, teymisstjóra fasteignaþjónustu Landspítala.
Fjölmargar tilnefningar bárust en það er ekki aðeins samstarfsfólk sem getur tilnefnt heldur einnig sjúklingar, aðstandendur og sjúklingasamtök.
Þeir einstaklingar sem voru heiðraðir í ár fengu verkið Á eftir listakonuna Ástu Fanneyju Sigurðardóttur.
Ásta Fanney er talin einn af fremstu gjörningalistamönnum landsins. Hún hefur sýnt og flutt verk sín á söfnum og hátíðum víða um heim og verður fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum í myndlist árið 2026 en tvíæringurinn er talinn einn mikilvægasti vettvangur samtímalistar á heimsvísu.
Verkið Á er prentverk í ótakmörkuðu upplagi en hvert verk er þó einstakt þar sem Ásta stimplar árfarveginn á hvert verk fyrir sig. Þar sem áin endar á hverju blaði tekur hún við á því næsta og þannig flæðir hún áfram í gegnum verkin. Verkið á rætur sínar í gjörningi sem Ásta sýndi á samtímalistasafninu í Tókýó árið 2023.