Markmið málþingsins var að skapa vettvang fyrir þverfaglegt samtal um lyfjaöryggi, rannsóknir og klíníska nýsköpun, með það að leiðarljósi að stuðla að bættum gæðum og auknu öryggi sjúklinga.
Undanfarin ár hefur Landspítali, í samstarfi við Háskóla Íslands, átt í öflugu rannsóknarsamstarfi við Háskólann í Innsbruck í Austurríki. Rannsóknarhópurinn hefur einkum beint sjónum að lyfjum sem hugsanlega geta verið orsakaþáttur í þróun óráðs meðal ólíkra sjúklingahópa, með það að markmiði að leggja grunn að alþjóðlegum klínískum leiðbeiningum á þessu sviði.