Með nýju skipuriti sem tók gildi 1. janúar 2023 var sett á stofn þróunarsvið innan spítalans í þeim tilgangi að styrkja þróun stafrænna lausna og nýsköpun, efla gagnagreiningu og nýtingu gagna í daglegri stjórnun og byggja upp verkefnastofu spítalans. Enn fremur í því skyni að hafa yfirumsjón með þátttöku spítalans í uppbyggingu nýrra mannvirkja við Hringbraut. Landspítali hefur um áraraðir verið leiðandi aðili á landsvísu þegar kemur að þróun stafrænna innviða, meðal annars með þróun Heilsugáttar og fjölda annarra verkefna sem snúa að stafrænum lausnum. Daglegur rekstur innviða spítalans er viðamikill og hafa stafrænar lausnir veigamikið hlutverk.
Nýverið tilkynnti heilbrigðisráðuneytið afrakstur yfirgripsmikillar vinnu við formlegt mat á stafrænni þróun og meðferð gagna innan heilbrigðisþjónustunnar. Samkvæmt frétt sem birtist á vef ráðuneytisins er lykillinn að því að hrinda í framkvæmd nauðsynlegum úrbótum að styrkja stjórnhætti stafrænnar heilbrigðisþjónustu. Til að ná því markmiði verður sett á fót miðlæg þróunareining stafrænna lausna sem hafa mun það hlutverk að samhæfa þróun stafrænna heilbrigðislausna, styðja við nýsköpun þróunaraðila á einkamarkaði og þróa stafræna innviði og lausnir. Með þessu sé stefnt að því að bæta upplifun notenda, nýta betur fjármuni og jafna aðgengi að stafrænum lausnum innan heilbrigðisþjónustunnar um allt land. Landspítali fagnar þessu skrefi og styður aukna áherslu á þennan mikilvæga málaflokk ásamt skýrari stefnu um samhæfingu og þróun stafrænna innviða í heilbrigðisþjónustu á landsvísu.
Með stofnun nýrrar einingar innan ráðuneytisins er ljóst að flutningur verður á verkefnum frá spítalanum til heilbrigðisráðuneytisins. Hefur það þau áhrif að stærð þróunarsviðs mun dragast verulega saman en sviðið hafði áður minnkað að umfangi við flutning verkefna sem varða nýjan Landspítala við Hringbraut frá sviðinu í lok árs 2023.
Bæði verkefnastofa spítalans og verkefni sem varða framþróun á sviði gagnagreiningar munu færast til skrifstofu forstjóra 1. október nk. Á komandi misserum verður lögð þung áhersla á miðlæg kjarnaverkefni ásamt greiningu og nýtingu gagna við ákvarðanatöku. Stöðlun og samhæfing þjónustu og annarrar starfsemi spítalans verða jafnframt forgangsverkefni sem meðal annars munu miða að flutningi í nýju mannvirkin á Hringbraut innan fárra ára. Loks munu þau verkefni sem heyra undir þróunarsvið færast undir rekstar- og mannauðssvið þann 1. janúar nk.