Í dag eru þrjár legudeildir starfandi í Fossvogi. B6 þjónar tveimur sérgreinum og sinnir þungum sjúklingum með langan meðallegutíma. B5 er bæklunarskurðdeild sem ekki hefur getað tekið við öllum bæklunarsjúklingum spítalans, sem hefur leitt til þess að sjúklingar liggja á tveimur öðrum deildum og ábyrgð á þeim er ekki alltaf skýr. A4 sinnir HNE-, lýta- og æðaskurðsjúklingum. Þar er mikið flæði, stuttur meðallegutími og nýlega hafa liðskiptaaðgerðir bæst við sem fjórða sérgrein.
Helstu áskoranir SKUGG eru að fjöldi skurðsjúklinga eykst stöðugt vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar, fjölgunar íbúa og aukins fjölda ferðamanna. Allt of oft þarf að fresta valaðgerðum vegna skorts á leguplássum og leysa úr flæðisvanda með skammtímalausnum. Þetta hefur í för með sér óþægindi fyrir sjúklinga og verðmætum tíma starfsfólks er sóað.
Ný deild, AB5, þjónustar alla bæklunarsjúklinga
Með nýju skipulagi verður starfsemin einfaldari og markvissari. Þrjár deildir verða sameinaðar í tvær. Dagdeildin sem nú er staðsett á A5 flyst á gang A4, og á fimmtu hæðinni verður til ný sameinuð deild, AB5, sem mun þjónusta alla bæklunarsjúklinga. Þangað flytjast liðskiptasjúklingar frá A4 og öldrunarbæklunarsjúklingar frá B6. Á B6 verða fjórar sérgreinar: heila og tauga, lýta, HNE og æðaskurðsjúklingar. Með þessum breytingum fjölgar opnum legurýmum um átta og dagdeildin fær aukið svigrúm. AB5 verður með 44 rúm og B6 með 22. Hágæsla fyrir skurðsjúklinga verður áfram á B6 og vöktunarrými fyrir fjöláverkasjúklinga bætist við á AB5.
Framkvæmdir hófust nú í september og standa til apríl 2026.
Ávinningurinn felst í aukinni sérhæfingu, betra sjúklingaöryggi og skilvirkara flæði. Sjúklingar munu leggjast á „sína“ deild í stað þess að vera í lánsplássum, starfsfólk fær markvissara vinnuumhverfi og biðlistar ættu að styttast.
Breytingarnar snerta fyrst og fremst skurðlækningasvið en áhrifin munu gagnast allri starfsemi spítalans. Með þeim er stigið mikilvægt skref í átt að framtíðarskipulagi Landspítala.