Leit
Loka

Hagnýtar upplýsingar

Sjúklingar:

 • Þvo og/eða spritta hendur oft
 • Þvo hendur eftir salernisferðir og fyrir máltíðir
 • Fara fram á að starfsfólk (allar stéttir) sé með hreinar hendur áður en það annast þig

Ef þú ert með leggi eða línur, s.s. súrefni í nös, þvaglegg eða æðaleggi er mikilvægt að fá upplýsingar hjá starfsmönnum um hvernig best er að umgangast slíkt.

Aðstandendur:

 • Þvo og/eða spritta hendur við komu á deild
 • Ekki koma í heimsókn ef með kvef, hósta, niðurgang eða uppköst

Veggspjöld um notkun hanska:

Myndbönd um handþvott:Sjúklingar 

Sjúklingar sem dvelja á Landspítala eru hvattir til að leggja sitt af mörkum til að verjast sýkingum og þar skipta einföld atriði eins og handhreinsun máli. Mikilvægt er að sjúklingar hreinsi oft hendur (handþvottur eða handsprittun) og sérstaklega við þessar aðstæður:

 • Eftir salernisferðir, með handþvotti
 • Fyrir máltíðir, með handþvotti eða handsprittun
 • Fyrir og eftir snertingu við sár eða íhluti eins og leggi eða línur (ef þessir hlutir eru til staðar) og þá jafnframt er mikilvægt að fá upplýsingar hjá starfsmönnum um hvernig á að umgangast hlutina

Sjúklingum er velkomið að minna starfsfólk á handhreinsun ef hún gleymist.

Aðstandendur

Aðstandendur og gestir sem koma á Landspítala geta borið örverur inn á deildina og sýkt sjúklinga. Með því að fylgja eftirfarandi leiðbeiningum er hægt að minnka þá hættu verulega.

Mikilvægt fyrir aðstandendur og aðrir gesti

 • Þvo eða spritta hendur við komu á deild
 • Fresta heimsókn ef hafa verið með hita, kvef, hósta, niðurgang eða uppköst á síðustu tveimur sólarhringum

Starfsfólk

Grundvallarsmitgát

Starfsfólk Landspítala notar ákveðin vinnubrögð til að rjúfa snertismit, bæði beint og óbeint. Þessi vinnubrögð kallast grundvallarsmitgát og innhalda reglur um handhreinsun, skartleysi á höndum, rétta notkun hlífðarbúnaðar, rétt vinnubrögð í umgengni við sjúklinga og hreinsun tækja og búnaðar og margt fleira.

Einangrun 

Stundum þarf að beita einangrun til að hindra útbreiðslu ákveðinna örvera. Sjúklingar í einangrun dvelja á einbýlum með sér salerni. Þeir sem fara inn til sjúklings í einangrun þurfa að klæðast hlífðarbúnaði skv. ákveðnum reglum og passa vel upp á handhreinsun þegar herbergið er yfirgefið. Einnig þarf að meðhöndla á réttan hátt alla hluti sem fara út úr herberginu til að hindra dreifingu örverunnar. Meðan einangrun varir er æskilegt að takmarka heimsóknir og gestir nota sama hlífðarbúnað og starfsmenn.

Spítalasýking er sýking sem sjúklingur fær á sjúkrahúsinu eða eftir meðferð á sjúkrahúsi.

Samkvæmt leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um sóttvarnir  fá 7% sjúklinga í þróuðum löndum spítalasýkingar. Samkvæmt starfsáætlun Landspítala er stefnt að fækkun spítalasýkinga á Landspítala svo að hlutfallið verði lægra en það.

Spítalasýkingar eru skráðar fjórum sinnum á ári á Landspítala og hefur gæða- og sýkingavarnadeild umsjón með því. Spítalasýkingar valda sjúklingum óþægindum og auknum veikindum. Auk þess fylgir þeim aukinn kostnaður í heilbrigðiskerfinu vegna lengri legutíma, lyfjanotkunar og stundum frekari inngripa. Það er því til mikils að vinna að koma í veg fyrir spítalasýkingar.

Algengar spítalasýkingarnar:

 • Þvagfærasýkingar eru algengustu spítalasýkingarnar og tengjast oft notkun á þvaglegg
 • Neðri öndunarvegasýkingar eða lungnabólgur tengjast oft notkun öndunarvéla
 • Skurðsárasýkingar, sem geta verið djúpar eða grunnar. Merki um skurðsárasýkingu eru roði og bólga yfir og umhverfis skurðsár, aukinn verkur og gröftur.
 • Blóðsýkingar tengjast oft inniliggjandi íhlutum eins og miðbláæðalegg, lyfjameðferð, t.d. ónæmisbælandi meðferð, eða koma fram sem fylgisýking annarra sýkinga eins og t.d. þvagfærasýkinga.

Aðrar spítalasýkingar geta til dæmis verið vegna smitandi örvera (bakteríur eða veirur) á sjúkrahúsinu t.d.:

Smitleiðir

Snertismit

Snertismit er algengasta smitleiðin innan sjúkrahúsa og utan. Snertismit skiptist í beint snertismit og óbeint snertismit. Beint snertismit er til dæmis þegar mengaðar hendur bera örverur milli einstaklinga og óbeint snertismit þegar örverur berast á/í einstaklinga úr umhverfi. Örverurnar geta tekið sér tímabundna eða varanlega bólfestu á/í líkama einstaklings.
Myndskeið sem sýnir hvernig örverur geta dreifst með snertismiti þegar hendur hafa ekki verið hreinsaðar.

Loftborið smit

Loftborið smit skiptist í dropasmit og úðasmit. Loftborið smit verður þegar úði eða dropar dreifast milli manna t.d. með hósta, hnerra eða tali. Örverur lifa misjafnlega lengi utan líkamans og geta mengað hluti í umhverfi.

Ónæmar bakteríur eru algengar víða um heim en þær geta verið ónæmar fyrir misjafnlega mörgum sýklalyfjum og sumar geta jafnvel verið ónæmar fyrir öllum sýklalyfjum.

Ónæmar bakteríur greinast líka á Íslandi en mun sjaldnar en erlendis. Undanfarin ár hefur sýklalyfjaónæmi meðal baktería færst í vöxt erlendis og sama þróun sést á Íslandi.

Sýkingar af völdum ónæmra baktería geta meðal annars leitt til seinkunar á réttri sýklalyfjameðferð, lengri legu, aukins kostnaðar og fleira.

Í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis þá eru allir sjúklingar sem leita til Landspítala spurðir ákveðinna spurninga til að meta hvort þurfi að taka sýni til að leita að ónæmum bakteríum.

Sýnatakan er sársaukalaus og felst yfirleitt í því að tekin eru strok á ákveðnum stöðum líkamans, niðurstöður liggja ýmist fyrir eftir nokkrar klukkustundir eða allt að 3 dögum.

Einstaklingur þarf að vera í einangrun meðan beðið er eftir niðurstöðum sýnanna. Ef ónæmar bakteríur greinast í sýnunum þarf einangrun að vara áfram.

Smitsjúkdómar A-Ö á vef Embættis landlæknis.

Gæða- og sýkingavarnadeild Landspítala tilheyrir sviði framkvæmdastjóra hjúkrunar og lækninga.

Starfssvið deildarinnar er vítt en megináherslan er á varnir gegn sýkingum á sjúkrahúsinu og eftirlit og skráningu sýkinga og ákveðinna örvera. Þá er kennsla nema og fræðsla til starfsmanna stór hluti starfsins auk samstarfs við sóttvarnalækni.

Sýkingavarnir á Landspítala sjá um fræðslu til starfsfólks og leita leiða til að draga úr líkum á spítalasýkingum. 

Vinnubrögð allra starfsmanna sjúkrahússins eiga að miða að því að hindra dreifingu sýkla í umhverfi og milli sjúklinga. 


Í reglugerð nr. 817/2012 um sóttvarnaráðstafanir er kveðið á um að á Landspítala skuli starfa sýkingavarnadeild. 

Reglugerðin tilgreinir að gæða- og sýkingavarnadeild skuli skrá sýkingar í tengslum við heilbrigðisþjónustu og stuðla að sýkingavörnum innan Landspítala.

Sýkingavarnir

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir
Af hverju ekki?